Microsoft Edge vafrinn talar nú íslensku

Markverðum áfanga var náð nýlega þegar talgervli á íslensku var bætt við Microsoft Edge vafrann. Þetta er einstaklega góður árangur fyrir ekki stærra tungumál og stór varða í áætlun um máltækni fyrir íslensku.

Íslenski talgervillinn hjá Microsoft kemur í kjölfar samstarfs Almannaróms, miðstöðvar um máltækni, og rannsóknar- og þróunarhópsins SÍM við fyrirtækið. Talgervillinn les upp íslenskan texta á þeim síðum sem notendur opna í Microsoft Edge vafranum. Þessi þjónusta gagnast fjölda hópa og má þar meðal annars nefna nemendur sem kjósa að hlusta á námsefni, blinda og sjónskerta.  

Fyrir utan aukið aðgengi að upplýsingum á netinu fyrir alla hópa, geta þeir sem vilja bæta sjálfvirkum upplestri eða talsvörun við sín kerfi samþætt talgervingu við sinn hugbúnað.

Þróun talgervils miðar að því að hann geti lesið upp íslenskan texta með skýrum og auðskiljanlegum framburði, og eðlilegu tónfalli. Talgervlar fyrir íslensku hafa verið þróaðir þannig að hægt er að framleiða margar mismunandi raddir, en á vafra Microsoft Edge heitir rödd talgervilsins hinu klassíska íslenska nafni Guðrún.

Til að fá íslenskan lestur á Microsoft Edge vafranum fara notendur á þá vefsíðu sem þeir vilja heimsækja í vafranum, smella á Tools og möguleikann Read Aloud. Efst í hægra horni kemur valmöguleiki þar sem hægt er að velja íslensku, með því að smella á nafnið Gudrun í flettiglugga (Voice Options).