Uppskriftin að árangri

Hinrik Sigurður Jóhannesson er framkvæmdastjóri Mannauðs og Ferla hjá Advania. Fyrirtækið sigraði í sínum flokki í keppninni Reddum málinu! sem var haldin í nóvember síðastliðnum, þar sem vinnustaðir kepptust við að lesa inn sem flestar setningar á vefinn samromur.is. Alls voru 350 fyrirtæki og stofnanir skráð til leiks og keppt var í þremur flokkum eftir stærð vinnustaða. Við fengum Hinrik til að segja okkur frá leyndarmálinu á bak við árangurinn hjá sínu fólki.

Hvernig sigrar maður í fyrirtækjakeppni?

„Það sem var skemmtilegt við stemminguna fyrir Reddum málinu hjá Advania var að átakið var keyrt áfram af nokkrum áhugasömum starfsmönnum sem sáu virðið í því að aðstoða við þetta þarfa verk. Ekki af því að það væri eitthvað á því að græða fyrir okkur eða þá, heldur til að hjálpa íslensku máli. Þegar þau voru búin að skrúfa upp stemmingu þá var ekki aftur snúið. Og svo viljum við alltaf vinna!“

Til að fá sem flesta til að vera með segir Hinrik að þetta hafi atvikast þannig að það fóru tveir straumar í gang. „Í raun er leyniformúlan tvískipt. Í fyrsta lagi notuðu forsprakkarnir innri vefinn okkar markvisst til að breiða út skilaboðin svo að þau næðu til sem flestra, væru skemmtileg og skoruðu á fólk að taka þátt. Hinn liðurinn er svo hreinlega hópþrýstingur þar sem hver og einn hvatti nánasta samstarfsfólk til að taka þátt. Að auki þá var, nokkrum sinnum á dag, stöðunni í keppninni deilt með starfsfólki - og hvað þyrfti til að ná fyrsta sætinu. Þetta keyrði upp keppnisskapið.“

 Lykillinn að sigrinum var því allt ofangreint. „Advania er félag sem keyrir mikið á góða stemmingu og við viljum vinna. Að auki þá var andinn í skilaboðunum og hvatningunni að þetta verkefni, þrátt fyrir að skipta ekki máli fyrir þá tækni sem við notum núna, gæti auðveldlega verið grunnur að einhverju góðu í framtíðinni. Og svo erum við bara nördar sem höfum gaman að svona verkefnum.“

Yfir 350.000 raddsýni

Alls söfnuðust 366.241 raddsýni í Reddum málinu. Að keppninni stóðu Almannarómur, miðstöð máltækni, Samrómur, Síminn og HR. Safnanir á raddsýnum mynda opið gagnasafn fyrir íslensku sem hver sem getur notað til þess að þróa máltæknilausnir. Tilgangurinn er að tryggja öryggi íslenskunnar á stafrænum tímum.

Almannarómur sér um framkvæmd máltækniáætlunar en henni er ætlað að tryggja framtíð íslenskrar tungu í tæknivæddum heimi - ásamt því að skapa vettvang fyrir samstarf vísinda og atvinnulífs og auka þannig samkeppnishæfi íslensks atvinnulífs.

Auður Inga Einarsdóttir, markaðsstjóri Advania á Íslandi og Ægir Már Þórisson, forstjóri, tóku við verðlaununum við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú afhentu sigurvegurum keppninnar viðurkenningarnar á degi íslenskrar tungu 2021. Forseti Íslands og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, eru verndarar Almannaróms.