Er mun bjartsýnni en áður

Af hverju er máltækni mikilvæg?

Almannarómur er miðstöð máltækni og sér um framkvæmd máltækniáætlunar fyrir íslensku. En hvað er máltækni og af hverju þurfum við að þróa máltæknilausnir? Við leituðum til meðlima stjórnar Almannaróms með þessar spurningar og það er formaðurinn sem ríður á vaðið.

Stefanía Guðrún er framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, vísisjóðs hjá Eyri Venture Management. Hún starfaði áður Landsvirkjun, þar sem hún var framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, og hjá CCP Games sem framkvæmdastjóri á Íslandi og sem yfirþróunarstjóri á skrifstofunni í Shanghai - bæði í vöruþróun á EVE Online og VR leikjum sem og í viðskiptaþróun í Kína. Áður en Stefania gekk til liðs við CCP Games starfaði hún í yfir 10 ár við orkutækni, við orkulausnir og viðskiptagreind. Stefanía er virk í ráðgjöf til sprotafyrirtækja, situr í háskólaráði HR og nokkrum stjórnum.

Hversu mikilvæg finnst þér máltækniáætlunin vera? 

„Máltækniáætlun gegnir mörgum hlutverkum fyrir alla sem búa og starfa á Íslandi, bæði þá sem eru fæddir hér og þá sem hafa flutt til Íslands. Tæknivæðing tungumálsins er nauðsynleg til þess að við getum öll tekið þátt í samfélaginu sem er í mótun.“

Hvað hlakkar þú mest til að nota tæknilausnir á íslensku í að gera í framtíðinni?

„Ég er spennt fyrir því að geta talað íslensku við símann, bílinn, brauðristina, ísskápinn og fleiri tæki í framtíðinni. Sem tæknigúrú og fjárfestir skoða ég mikið gervigreind og þar er mjög hröð þróun að eiga sér stað, ég veit að mér dettur ekki í hug hvaða tæknilausnir geta komið til sögunnar, en ég er sannfærð um að Íslenskan mun þar eiga stað og við munum vilja tala við öll möguleg tæki á Íslensku.“

Ertu bjartsýn/n á að það takist að gera tungumálið gjaldgengt í tæknivæddum heimi? 

„Þegar ég tók við sem formaður stjórnar Almannaróms árið 2017 þá vissu fáir hvað máltæknilausnir væru, núna tölum við um talgreini og talgervil okkar á milli í samfélaginu. Núna eru líka komnar hugbúnaðarhirslur fyrir þá sem vilja nýta sér kjarnalausnir í máltækni og þar geta fyrirtæki og aðrir sótt í þá tækni sem þarf til. Ótrúlegur árangur hefur því náðst og sú ákvörðun hjá stjórnvöldum að styðja við máltækni mun leiða okkur þangað sem við ætlum, að Íslenskan verði gjaldgeng í allri tækni. Ég er mun bjartsýnni en áður, en ég veit að við þurfum reglulega að taka þá ákvörðun um að halda áfram að gera Íslenskuna gjaldgenga í tækniheimi.“