Nýsköpun og uppbygging þekkingar

Máltækniáætlanir stjórnvalda hafa orðið grundvöllur mikillar nýsköpunar og þekkingaruppbyggingar á Íslandi undanfarin ár. Viðfangsefni þeirra hefur verið að gera hvers konar samskipti við tölvur og tæki möguleg á íslensku og tryggja þannig að Íslendingar geti notað nýjustu og bestu tæknilausnir á markaði á eigin móðurmáli. Verkefnin sem fylgt hafa máltækniáætlun hafa verið eins mörg og þau eru mismunandi, allt frá söfnun gagna til þróunar nýrra tæknilausna og samstarfs við erlend stórfyrirtæki. Þau hafa leitt af sér ný tæknifyrirtæki á Íslandi sem hafa sérhæft sig í þróun á íslenskum máltæknilausnum með frábærum árangri.

Nýttu þér opin gögn

Undir máltækniáætlun hefur átt sér stað mikil uppbygging innviða fyrir íslenska máltækni og gervigreind. Gríðarlegu magni íslenskra gagna hefur verið safnað og þróun átt sér stað á ýmsum hugbúnaði fyrir íslenskt mál, t.d. hugbúnaði fyrir þýðingarvélar, tal í texta, texta í tal og leiðréttingarforrit. Allir þessir innviðir hafa verið gefnir út undir opnum leyfum svo hver sem er geti nýtt sér þá við eigin hugbúnaðarþróun eða til að bæta íslenskugetu eigin lausna.

Íslenski málbankinn: Öll gagnasöfn fyrir íslensku má nálgast hjá Íslenska málbankanum og hægt að nýta þau til að þróa nýjar lausnir á íslensku.

GitHub: Á GitHub-síðu Almannaróms má nálgast ýmis málföng á borð við kóða, þjálfunargögn, skriftur o.fl.

Hugging Face: Á Hugging Face-síðu Almannaróms má nálgast opin grunnlíkön og hugbúnað sem hafa verið þróuð fyrir íslenska tungu.

  • Miðeind

    Miðeind er íslenskt gervigreindar- og máltæknifyrirtæki sem hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum verkefnum innan máltækniáætlana síðastliðin ár. Miðeind hefur þróað fjöldan allan af öflugum máltæknilausnum sem hægt er að nálgast á síðu þeirra málstað.is. Mest notaða lausn þeirra, Málfríður, er þróuð sem hjálpartól við textavinnslu en hún lagfærir stafsetningu, málfræði og stíl notenda, finnur samheiti fyrir orð og orðasambönd til að auðga texta og getur búið til samantekt úr texta á kjarnyrtu formi. Miðeind hefur einnig þróað lausnir fyrir tal í texta og skjátextun, þýðingarvélar fyrir ensku, pólsku og fleiri tungumála og spurningasvörun.

  • Tiro

    Tiro ehf., stofnað 2016, er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, smíði og viðhaldi tæknilausna á sviði tölvugreindar, talgreiningar og máltækni. Tiro hefur þróað og smíðað sérhæfða talgreina fyrir heilbrigðisþjónustu sem og rauntíma textasetningu fyrir sjónvarpsveitur og fleira. Tiro er fyrsta íslenska fyrirtækið til að bjóða almenningi aðgang að talgreini (tal í texta) fyrir íslenskt mál á vefsvæði fyrirtækisins. Til viðbótar býður Tiro upp á sérhæfðar lausnir fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem og aðgang að forritaskilum fyrir talgreiningu.

    Þátttaka í kjarnaverkefnum

    • Taltækni
  • Grammatek

    Grammatek ehf. var stofnað árið 2018. Fyrirtækið vinnur að þróun máltæknilausna og leggur áherslu á að þær megi hagnýta. Starfsfólk vinnur að máltæknirannsóknum sem og að hugbúnaðarþróun, enda hefur það sterkan og alþjóðlegan bakgrunn á þessum sviðum. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun íslenskra tölvuradda sem geta lesið upp texta á íslensku. Símarómur er helsta lausn Grammatek, sem hægt er að hlaða niður í bæði Android og iOS stýrikerfi. Sumarið 2025 varð Símarómur fyrsti íslenski talgervillinn sem keyrir á iOS stýrikerfi og því er nú hægt að fá iPhone og aðrar Apple vörur til að lesa upp íslenska texta. Lausnin er í notkun hjá hundruðum notenda og nýtist sérstaklega þeim sem ekki geta lesið af skjá sjálfir.

60 milljónum úthlutað í hagnýtingarverkefni

Snemma á árinu 2025 styrkti Almannarómur sérstaklega innleiðingu máltæknilausna hjá fyrirtækjum og stofnunum í samvinnu við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Styrkirnir voru veittir undir yfirskriftinni Skerfur en 12 verkefni voru styrkt fyrir samtals 60 m.kr. Öll verkefnin fela í sér innleiðingu og/eða hagnýtingu á íslenskri máltækni í samræmi við máltækniáætlun 2. Styrkjunum er ætlað að styðja við þróun og innleiðingu hagnýtra endalausna sem byggja á máltækni. Styrkveiting er háð því að verkefni styðji við meginmarkmið máltækniáætlunar um að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi og stuðli að aukinni notkun á íslensku í tæknivörum og hugbúnaði.