Frábær byrjun, en hvenær get ég kveikt ljósin á íslensku?

Grein eftir Örn Úlfar Sævarsson, formann fulltrúaráðs Almannaróms og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms. Greinin birtist í Fréttablaðinu á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2021.

Síðastliðin ár hefur verið unnið mikil og merkileg grunnvinna í máltækni fyrir íslensku. Máltækniáætlun, sem hugsuð var til fimm ára, hefur gengið vonum framar og mun ljúka fyrr en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það er frábær byrjun á því risavaxna verkefni að gera íslensku gjaldgenga á sem flestum snertiflötum tungumála og tækni. Það er fagnaðarefni að sjá svo fljótt árangurinn af því þessari markvissu vinnu sem dregur úr hættunni á því að við Íslendingar missum af máltæknilestinni og spennandi möguleikar fari forgörðum. Íslenskan þrífst líka best þegar við notum hana sem mest.

Grunnhugsun fyrstu máltækniáætlunarinnar er að þróa opna innviði sem skiptast í nokkur kjarnaverkefni. Þar á meðal eru gagnasöfn og fleira sem nýtist fyrir talgreiningu, talgervil, vélrænar þýðingar og ritvilluleiðréttingar eða málrýni. Þar að auki er verið að þróa almennar málheildir, orðfræðigögn og nauðsynleg stoðtól. Þessar kjarnalausnir verða gefnar út undir opnum leyfum svo hver sem er getur nýtt sér þær án endurgjalds. Þannig geta fyrirtæki til dæmis nýtt talgreini, talgervil, vélrænar þýðingar og sjálfvirkar villuleiðréttingar í þróun hugbúnaðar fyrir viðskiptavini sína, til dæmis til að efla þjónustu við sjón- eða heyrnarskert fólk.

Nú er komið að næstu skrefum og þau þurfa að endurspegla sama metnað og ráðið hefur ferðinni til þessa. Næsta máltækniáætlun okkar Íslendinga þarf að fylgja eftir þessari frábæru byrjun og virkja enn betur þann öfluga hóp sérfræðinga á sviði máltækni sem orðið hefur til á síðustu árum og kalla fleiri til samstarfs. Spennandi verkefni bíða í aukinni samvinnu við atvinnulífið og samfélagið allt; að styrkja grunninn áfram en sækja um leið fram af krafti þannig að snjallar máltæknilausnir birtist sem fyrst og nýtist skjólstæðingum og viðskiptavinum stofnana og fyrirtækja. Hver veit nema við getum þá bráðum textað kynnana í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í beinni eða kveikt ljósin heima hjá okkur á íslensku? Er það ekki málið?