Almannarómur, miðstöð máltækni hefur, á grundvelli samnings við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, skilað af sér mati á fýsileika þess að til verði íslensk miðstöð gervigreindar og máltækni að norrænni fyrirmynd. Lagt er til að miðstöðin yrði rekin í sjálfseignarformi með aðkomu stjórnvalda, atvinnulífs, háskóla og annarra samtaka.
Drög að matinu voru kynnt fyrir ráðherra í lok maí 2025 og er það birt hér á endanlegu formi. Ráðuneytið hefur tekið við niðurstöðunum og hyggst vinna þær áfram í nánu samráði við hagaðila en gert er ráð fyrir verkefninu í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026.
Í matinu kemur fram að Ísland hafi einstaka getu til að verða leiðandi í hagnýtingu gervigreindar og máltækni, meðal annars vegna grænnar orku, öflugrar sérþekkingar í máltækni og sterkra menningarlegra áherslna í íslensku samfélagi. Lagt er til að komið verði á fót öflugri miðlægri miðstöð gervigreindar og máltækni, sem starfi sjálfstæð en með styrkri aðkomu hins opinbera, fyrirtækja og vísindasamfélags.
Miðstöðin myndi meðal annars:
- styðja við uppbyggingu þekkingar og færni á vinnumarkaði,
- aðstoða við stefnumótun og sinna hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi,
- efla hagnýtar rannsóknir og innviði með uppbyggingu séríslenskra gagnasafna og aðstoð við að tryggja reikniafl
- aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að innleiða gervigreind á hagnýtan og ábyrgan hátt.
„Sá mikli árangur sem náðst hefur fyrir íslensku í stafrænni tækni lýsir vel þeim tækifærum sem möguleg miðstöð gervigreindar og máltækni fæli í sér,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms. „Við hjá Almannarómi höfum unnið þessa vinnu fyrir máltækni undanfarinn áratug og bendum nú á tækifæri til að útvíkka sambærilegt starf að fleiri sviðum gervigreindar. Miðstöð gervigreindar og máltækni myndi brúa bilið á milli rannsókna og hagnýtingar tækni og styðja við verkefni sem eru samfélagslega mikilvæg en ekki þess eðlis að markaðurinn muni sinna þeim einn og sjálfur.
Flestar spár um þróun vinnumarkaðar gera ráð fyrir að gervigreind muni gjörbreyta eðli starfa á næstu árum og áratugum. Sem dæmi má nefna að Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) áætlar að um 40% kjarnafærni muni breytast fyrir árið 2030 og samkvæmt greiningu á efnahagslegum tækifærum gervigreindar á Íslandi er gert ráð fyrir að ríflega 55% starfsfólks á Íslandi muni finna fyrir verulegum áhrifum gervigreindar í störfum sínum og rúm 21% til viðbótar verði fyrir einhverjum áhrifum hennar.