Í dag hefst formlega heimildasöfnun Almannaróms og Árnastofnunar á orðaforða úr íslensku atvinnulífi. Markmiðið er að styrkja innviði máltækni á íslensku og búa henni framtíð í tækni. Söfnunin snýr að stafrænum gögnum sem ekki teljast viðkvæm og endurspegla daglegt starf og ferla fyrirtækja og stofnana.
Þegar hafa um 40 fyrirtæki og stofnanir skráð sig í söfnunina og ákveðið að veita Almannarómi og Árnastofnun heimildir sem verða nýttar til þess að byggja upp máltækni fyrir íslensku. Þar má nefna stórfyrirtæki á borð við: Íslandsbanka, Advania, Festi, Heima, Deloitte, Icelandair og Húsasmiðjuna.
Frá árinu 2014 hefur Almannarómur byggt upp innviði íslenskrar máltækni í samstarfi við Árnastofnun, háskóla og fyrirtæki og lagt grunn að því að tölvur, símar, snjalltæki og hugbúnaður séu á íslensku. Vika íslenskrar tungu var í síðustu viku og af því tilefni stóð Almannarómur fyrir átakinu: „Þín íslenska er málið“ þar sem fólk var hvatt til þess að nota sína íslensku. Næsti liður átaksins er heimildasöfnunin þar sem fyrirtæki og stofnanir landsins verða hvött til að leggja íslenskunni lið í verki.
Heimildasöfnun:
Heimildasöfnunin snýr að hvers konar textagögnum á íslensku frá fyrirtækjum og stofnunum sem ekki eru viðkvæm. Þetta geta sem dæmi verið skýrslur af ýmsu tagi, starfsmannahandbækur, innri verklagsreglur og leiðbeiningar, kynningar, almenn samningsform, rekstraryfirlit og allur annar texti sem fyrirtækið er tilbúið að deila og endurspeglar daglegt starf þess. Það eina sem skiptir máli er að gögnin séu á íslensku.
Heimildirnar verða hluti af Risamálheild Árnastofnunnar en hún er miðlæg grunnstoð máltækni á íslensku. Hana byggjum við upp til þess að hægt sé að þróa máltækni- og gervigreindarlausnir á íslensku.
Með innleggi fyrirtækja og stofnana fáum við raunsanna mynd af íslensku atvinnulífsins inn í Risamálheildina. Fjölbreytt orðasöfn sem tengjast mismunandi atvinnugreinum færa okkur skrefinu nær því að tæknin verði reiprennandi í þinni íslensku.
Framtíð íslenskunnar í tækni:
Stóra sóknarfærið fyrir íslenskuna er núna. Almannarómur hefur unnið að því að búa íslenskunni framtíð í tækni síðan 2014, en meira þarf til svo við tryggjum stöðu hennar til framtíðar.
„Með þessu átaki styrkjum við íslensku í tækni og eflum stöðu allra þeirra sem nota íslensku í leik og starfi. Sú íslenska sem læknar tala er ólík þeirri íslensku sem heyrist í bönkum, skólum eða sjávarútvegi. Svo tæknin nýtist fólki í starfi þarf hún að þekkja þeirra tungutak,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms.
Fyrirtæki og stofnanir sem hafa þegar skráð sig til leiks:
Advania, Apró, Arion banki, Aton, Deloitte, Fagkaup, Faxaflóahafnir, Félag Lesblindra á Íslandi, Festi, Grammatek, Hagar, Heimar, HÍ, Húsasmiðjan, Icelandair, Íslandsbanki, Íslandsstofa, KPMG, Kolibri, Landsbankinn, Landsnet, Landsvirkjun, Lyf og heilsa, Miðeind, Nordic Ignite, Orkusalan, RÚV, Skagi, Skel, Snjallgögn, Tiro, Viska, ÖBÍ réttindasamtök.
Eftirfarandi er hlekkur á vefsvæði átaksins: https://almannaromur.is/thin-islenska-er-malid


