Lestrarkeppni grunnskólanna haldin í þriðja sinn

Lestrarkeppni grunnskóla hefst á morgun, fimmtudaginn 20. janúar. Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og líkt og í fyrri keppnum lesa grunnskólanemar inn setningar á vefsíðunni samromur.is og markmiðið er að lesa inn sem flestar. Keppnin stendur yfir í viku og lýkur á miðnætti þann 26. janúar. Meðan keppnin stendur yfir verður hægt að fylgjast með stöðunni á vef Samróms.

Keppnin verður sett af stað formlega af forsetahjónunum Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid í Smáraskóla kl. 15. streymt verður beint á Facebook-síðu Samróms. Tilgangur keppninnar er að virkja yngstu kynslóðina til að safna gögnum til smíði lausna fyrir máltækni, það er, svo að hægt verði að tala íslensku við tölvur og tæki. Nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla geta lesið inn fyrir sinn skóla. Þátttaka sem flestra skiptir miklu máli svo að raddir og framburður fáist frá sem breiðustum hópi.

Skólum er skipt í þrjá flokka og verðlaun veitt fyrir efsta sætið í hverjum flokki. Þar að auki verða veitt þrenn verðlaun fyrir þá skóla sem skara fram úr en eru ekki í fyrsta sæti í sínum flokki. Sigurvegari hvers flokks fær vegleg verðlaun frá Elko en hver sigurskóli mun fá Monoprice MP10 Mini þrívíddarprentara og eitt sett af Rasberry Pi 400 tölvu. Einnig verða veitt verðlaun til þriggja skóla sem skara fram úr, en vinna ekki sinn flokk, en hver þeirra mun fá tvö sett af Rasberry Pi 400 tölvum.

Það er skammt stórra högga á milli í innlestrarkeppnum en í nóvember síðastliðnum stóðu Almannarómur, Samrómur, Háskólinn í Reykjavík og Síminn fyrir vinnustaðakeppninni Reddum málinu. Tæp milljón innlesinna setninga hafa safnast hingað til í fyrri grunnskólakeppnum og alls söfnuðust 366.241 raddsýni í Reddum málinu.