Framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi
Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri Félags Lesblindra á Íslandi frá árinu 2008. Sjálfur greindist ég ekki lesblindur fyrr en rúmlega þrítugur og hafði þá ekki gengið vel í skólakerfinu eins og mjög algengt var með lesblinda af minni kynslóð og lærði því fljótt að sýna sjálfsbjargarviðleitni og stofnaði ungur mitt eigið fyrirtæki. Eftir að hafa rekið fyrirtæki í mörg ár og síðan starfað við tryggingaráðgjöf í önnur mörg ár fann ég mína ástríðu og köllun með því að vinna að hagsmunamálum lesblindra og því að styrkleikar lesblindra séu nýttir samfélaginu okkar til heilla.
Ég hef tekið þátt í starfi Almannaróms frá upphafi og setið í stjórn frá 2019 því ég tel það mjög mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að hafa eigið tungumál. Íslenska tungumálið bindur okkur saman sem þjóð og af því að við erum fámenn þá skiptir okkur meira máli að verja tungumálið okkar og í dag gerist það ekki nema að hafa góð tök á tungumálinu í stafrænu umhverfi. Við þurfum öll og sérstaklega lesblindir að getað hlustað á texta í tölvu eða símtæki, talað við tækin og láta tæki skrifa texta fyrir okkur. Við það að tækin skilji íslensku erum við að vernda tungumálið og jafnframt að auka möguleika t.d. lesblindra að takast á við nám og starf.

