Sverrir Norland

Af hverju máltækni?

Sverrir Norland

Rithöfundur

„Það er með mikilli ánægju sem ég sest í stjórn Almannaróms.

Sem rithöfundur, þýðandi og bókaútgefandi er mér auðvitað annt um tungumálið okkar. Orð íslenskunnar eru ekki aðeins tæki og tól heldur hluti af líkama mínum. Ég vil tryggja að hún sé nothæf á öllum sviðum mannlegs lífs, sama hvort um er að ræða vini sem slúðra yfir kaffibolla, skurðlækna sem kryfja flókna áskorun í vinnunni eða miðaldra rokkaðdáanda sem biður símann sinn um að spila lag með Iron Maiden á meðan hann brytjar niður appelsínur, kál og tómata í salat. Sem foreldri fjöltyngra barna vil ég enn fremur tryggja að þau geti nýtt íslenskuna í samskiptum við tækin sín ekki síður en ensku eða frönsku. Ég vil að þeim finnist sjálfsagt að geta gert það.

Máltækni er hluti af fjórðu iðnbyltingunni og því þarf að hugsa um breytingarnar, sem eru að verða allt í kringum okkur, í svimandi stóru samhengi. Hvaða áhrif munu gervigreind, og máltækni, hafa á störf framtíðar? Á listsköpun? Á mannleg samskipti? Á sálarlíf okkar? Flest tækni er vitaskuld þróuð í hagnýtum tilgangi en hvað um lífsgleðina og sköpunarkraftinn? Gætu gervigreind og menn tekið að leika sér meira saman? Spurningarnar eru endalaust margar, flóknar og margslungnar, og við þurfum að hugsa um þessi mál með frjóa bjartsýni, leikgleði og ímyndunaraflið að vopni. Við sitjum við stjórnvölinn og mótum framtíðina með því að móta tæknina.

Ég vil taka þátt í þessu samtali og setja svip minn á það. Við, þessi agnarlitla þjóð, þurfum öll að taka þátt í því að móta stafræna framtíð íslenskunnar. Það verður skemmtilegt.“