Framtíðin rædd við fræðimenn MIT

Það var ekki aðeins fundað með framsæknum tæknifyrirtækjum í ferð sendinefndar forseta Íslands vestur um haf nýlega. Hópurinn eyddi föstudeginum 20. maí með sérfræðingum eins besta tækniháskóla heims, MIT (Massachusetts Institute of Technology) í Boston. Sendinefndin hélt þar áfram að skýra markmið með máltækniáætluninni: að fella íslenska tungu inn í máltækninýjungar sem byggja á gervigreind. Tilgangurinn var þó jafnframt að hlusta á hvað fremstu fræðimenn heims höfðu að segja um framtíðina og tæknina.

Fundarstaðurinn hið framsækna Media Lab

Dagurinn hjá MIT var þétt skipulagður. Nefndin fundaði stíft með yfirmönnum rannsókna, fræðimönnum og deildarforsetum á sviðum tölvunarfræði, gervigreindar og nýsköpunar, meðal annars. Einnig voru haldnir fundnir um stefnumótun rannsókna, framtíð hönnunar og samstarf háskólans og Íslands á sviði nýsköpunar. Heimsóknin fór fram í hinni einstöku og heimsfrægu rannsóknastofu, MIT Media Lab.

„Viljum að tæknin sé í okkar þágu“

Í viðtali sem tekið var við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, meðan á heimsókninni stóð segir hann Íslendinga ákveðna í því að skapa tungumáli sínu sess í tæknivæddri framtíð. Þar spili gervigreind stórt hlutverk. „Von okkar er að þróun gervigreindar sé í okkar þágu og til heilla fyrir mannkynið.“ Hópurinn hitti einnig Íslendinga sem vinna hjá MIT eða eru í rannsóknum á svæðinu, meðal annars Svöfu Grönfeld, sem hópurinn þakkar sérstaklega fyrir höfðinglegar móttökur og áhugaverða dagskrá.