Nýsköpun og uppbygging þekkingar

Máltækni er grundvöllur eðlilegra samskipta fólks við tæknina, hvort sem er í töluðu eða rituðu máli. Undanfarið hefur rutt sér rúms margs konar þjónusta sem nýtir þennan samskiptahátt og hefur breytt aðkomu að tækninni með því að gera fólki kleift að skipa á mæltu máli, skanna inn texta, lesa fyrir og fleira, sérstaklega á enskri tungu.

Máltækniáætlun hefur það að markmiði að gera samskonar samskipti möguleg á íslensku.

Máltækniáætlun

Við framkvæmd máltækniáætlunar leggur Almannarómur áherslu á að byggja upp þekkingu í máltækni á Íslandi og leggja þannig grundvöll að nýsköpun á þessu sviði. Kjarnalausnirnar sem koma út úr grunnrannsóknum máltækniáætlunar geta fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar nýtt til að þróa vörur og þjónustu á íslensku. Í því skyni verða allar afurðir grunnrannsókna máltækniáætlunar gefnar út undir óafturkræfum opnum leyfum sem heimila hvers kyns hagnýtingu.

Apache 2.0 fyrir hugbúnað

CC BY 4.0 fyrir gögn  

Leyfiskeðjan verður skýr, allt sem fer inn í kjarnalausnirnar þarf að hafa skilgreind leyfi, allt sem kemur út geta fyrirtæki og stofnanir, nýsköpunarsamfélagið og alþjóðleg tæknifyrirtæki nýtt, án þess að þurfa að greiða fyrir það. Þegar gögn og kjarnalausnir eru tilbúnar hjá rannsóknar- og þróunaraðilum afhenda þeir miðstöð CLARIN á Íslandi afurðirnar. Þar geta fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar nálgast þær til hagnýtingar í sinni þróun.

Íslenska CLARIN-miðstöðin

CLARIN-IS er hluti af CLARIN ERIC, evrópsku innviðaverkefni sem er stofnað til að halda utan um stafræna innviði – gögn og hugbúnað – til nota við rannsóknir í félags- og hugvísindum, sem og í máltækni. CLARIN-IS-miðstöðin á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók til starfa í ársbyrjun 2019 og þar hefur nú verið komið upp lýsigagnamiðstöð og varðveislusafni málfanga. Samkvæmt samningi Almannaróms við SÍM skal öllum afurðum máltækniverkefnisins, gagnasöfnum og hugbúnaði, skilað í varðveislusafnið, í samræmi við fyrirfram gefnar vinnureglur, staðla og leyfisskilmála. Lýsigögnin fara þá í sýndarsafn málfanga (Virtual Language Observatory) og afurðirnar verða þannig auðfinnanlegar og aðgengilegar.

Þróun er í fullum gangi

Nú þegar eru ýmis gögn úr máltækniáætlun tilbúin til notkunar en þróun fjölda annarra er í fullum gangi.

Almannarómur hvetur fyrirtæki og einstaklinga sem hafa hugmyndir um vörur og þjónustu sem nýta kjarnalausnirnar til að setja sig í samband við CLARIN og fá aðgang að þeim.