Meta, Open AI og Amazon áhugasöm um íslenskuna

Íslenska sendinefndin sem fundaði með fyrirtækjum vestanhafs í síðustu viku heimsótti tvö framsæknustu fyrirtækja heims; Meta og OpenAI auk verslunarrisans Amazon.

Ekkert tungumál skilið eftir hjá Meta

Hjá Meta (sjá mynd) tók Nick Clegg, sem fer fyrir alþjóðastefnumótun Meta á móti nefndinni og veitti innsýn inn í spennandi framtíðarsýn og möguleika Metaverse, sem Meta mun byggja upp og fjárfesta í fyrir tíu milljarða Bandaríkjadala í náinni framtíð. Þar verður meðal annars lögð áhersla á máltækni undir yfirskriftinni „No language left behind“, þar sem markmiðið er að allt mannkyn geti talað saman á eigin tungumáli í rauntíma.

Erum á tímamótum

Sam Altman, forstjóri OpenAI, stofnaði fyrirtækið með Elon Musk í þeim tilgangi að tryggja aðgang allra að gervigreind - og að ýta á að hún verði notuð til góðra verka. Sam sýndi hópnum hluta þeirra óendanlegu möguleika sem gervigreindarlíkön OpenAI hafa upp á að bjóða - og að sögn Jóhönnu Vigdísar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, er markmiðið að sjá til þess að íslenskan verði með í þeim líkönum. „Gervigreind mun gjörbreyta heimi okkar og samfélagi, jafnvel meira en fyrsta iðnbyltingin gerði undir lok 19. aldar og fundurinn með Sam sýndi okkur að við erum á sögulegum tímamótum.“

Rannsóknarsamstarf hluti af næstu áætlun

Hjá Amazon tók Susan Pointer, sem stýrir alþjóðastefnumótun, á móti hópnum ásamt lykilstjórnendum hjá Amazon Alexa og Amazon Polly. Jóhanna Vigdís ræddi mikilvægi þess að langtíma rannsóknarsamstarf leiðandi alþjóðlegra stórfyrirtækja á borð við Amazon og íslenska máltæknisamfélagsins yrði hluti af næstu máltækniáætlun stjórnvalda. Þannig yrði hvoru tveggja hægt að tryggja að íslenskan ætti greiða leið inn í tæki og hugbúnað sem við notum á hverjum degi og að rannsóknir- og þróun á Íslandi yrði í takt við hraða tækniþróun.

Ræddu mikilvægi tungumála

Hjá Amazon lagði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, áherslu á mikilvægi samstarfs íslenska máltæknisamfélagsins og rannsóknar- og þróunaraðila hjá Amazon, enda væri slíkt samstarf besta leiðin til að tryggja íslenskar máltæknilausnir í vörum Amazon. Tungumál heimsins væru ekki aðeins verðmæti í sjálfum sér heldur væri menning og saga allra þjóða geymd í tungumáli þeirra. Ef tungumálin lifðu ekki þá myndu mikil menningarverðmæti glatast, ásamt sögu mannsins og þeim lærdómi sem við getum dregið af henni. Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ræddi um uppruna íslenskunnar og þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á varðveislu hennar í stafrænni tækni, meðal annars með núverandi máltækniáætlun.