Almannarómur og SÍM verðlaunuð á UTmessunni

Almannarómur - miðstöð máltækni og SÍM, Samtök um íslenska máltækni, hlutu verðlaun sem UT-stafræna þjónustan árið 2021 á hinni árlegu UTmessu sem haldin var nýlega. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á ráðstefnu- og sýningardegi messunnar.

Í tilkynningu frá aðstandendum viðburðarins segir:

„Almannarómur er miðstöð máltækni og vinnur að því mikilvæga verkefni að tryggja að máltæknilausnir verði smíðaðar fyrir íslensku. Almannarómur hefur það hlutverk að tryggja að íslensk tunga sé notuð í allri tækni og sér um framkvæmd á metnaðarfullri Máltækniáætlun stjórnvalda til að fylgja íslenskunni inn í framtíðina.“

Stærsta opna raddgagnasafn í heimi

Þar er tekið fram að Almannarómur, með SÍM sem framkvæmdaaðila áætlunarinnar, hafi á árinu gefið út ótal máltækniafurðir sem fjöldi fyrirtækja og stofnanir séu nú þegar byrjuð að nýta til að bæta þjónustu við sína viðskiptavini. Þá hafi ýmis þjónusta sem nýtist öllum í daglegu lífi litið dagsins ljós, svo sem yfirlestur.is, velthyding.is og sjálfvirk textun í rauntíma á tiro.is.

Almannarómur og SÍM hafi jafnframt náð miklum árangri með lýðvirkjun (crowdsourcing) með söfnun raddgagna í þágu hugbúnaðarþróunar í gegnum vefinn samromur.is en þar hafa 28 þúsund einstaklingar hafa lesið ríflega 2.8 milljónir setninga á íslensku - og þannig búið til eitt stærsta opna raddgagnasafn í heimi.

Öryggisfyrirtækið Syndis hlaut UT-verðlaun Ský 2022. Jafnframt voru veitt verðlaunin UT-Sprotinn (Aurbjörg) og UT-Fyrirtæki ársins (Alfreð).